
Yfirliðið
Við erum sex manna sundsveit úr Sundfélaginu Ægi og ætlum að synda boðsund yfir Ermarsundið í sumar, til styrktar AHC samtökunum á Íslandi.
AHC er sjaldgæfur taugasjúkdómur sem einkennist af endurteknum, tímabundnum lömunarköstum, sem yfirleitt ná til annarrar líkamshliðarinnar í einu. Köstin hafa einnig áhrif á minnið en algengt er að eftir köstin gleymi barnið því sem það hafi áður lært og hefur það mikil áhrif á þroska þess.
Yfirliðið á fyrsta sundrétt á tímabilinu 19. – 27. júlí 2014, sem þýðir að um leið og veður leyfir og skipstjórinn gefur grænt ljós, verður synt af stað. Ætlunin er að synda fram og til baka, en engin íslensk boðsundssveit hefur náð því markmiði.
Til að skoða bækling um Yfirliðið smelltu hér



Corinna Hoffmann hefur æft þríþraut með Ægi síðan 2008 og hefur tekið þátt í fjölmörgum tví- og þríþrautarkeppnum. Hún kláraði meðal annars heilan járnkarl í Köln í Þýskalandi, árið 2011. Að auki hefur hún keppt í fjölmörgum götu- og fjallahjólakeppnum, meðal annars 160 km götuhjólakeppni, Jökulmílunni, árið 2013. Corinna hefur stundað sjósund í fjögur ár og hefur synt Fossvogssund og út í Viðey frá Skarfakletti. Hún varð Íslandsmeistari í 1 km sjósundi í sínum aldursflokki árið 2013. Auk þess hefur hún keppt á Íslands- og Norðurlandamótum í garpasundi. Corinna er ævintýragjörn og er mikill fjallagarpur. Hún hefur gengið á flest fjöll landsins auk þess sem hún hefur farið í fjallaferðir erlendis.
Harpa Hrund Berndsen hefur stundað sjósund í fjögur ár og æfir sund og þríþraut með Ægi. Hún hefur meðal annars synt Viðeyjarsund, Ægissíðusund, Bessastaðasund, Skerjafjarðarsund og Skarfavararsund auk þess sem hún tók þátt í sundkeppni á Englandi í fyrrasumar þar sem synt var upp á móti straumi í Thames ánni. Harpa hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum þríþrautarkeppnum. Harpa varð fjórfaldur Íslandsmeistari í sínum aldursflokki í garpasundi árið 2013, fékk brons á Íslandsmótinu í 3 km sjósundi sumarið 2013 auk þess sem hún vann til verðlauna í sínum aldursflokki á nýafstöðnu Norðurlandamóti í garpasundi.
Helga Sigurðardóttir æfir sund með Ægi og er nýlega byrjuð að stunda sjósund. Helga er fyrrverandi afrekskona í sundi, var í landsliði Íslands í sundi 1985-1993 og tók þátt í fjölda alþjóðlegra móta á þeim tíma ásamt því að vera margfaldur Íslandsmeistari og Íslandsmethafi í sundi. Hún keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992. Helga æfði og keppti með háskólaliði The University of Alabama á háskólaárum sínum. Hún lagði stund á lyftingar, spinning, hlaup og crossfit áður en hún snéri aftur í sundið. Árið 2013 varð Helga fimmfaldur Íslandsmeistari garpa í sínum aldursflokki og setti 7 Íslandsmet garpa. Einnig keppti hún á Evrópumeistaramóti garpa í Eindhoven í Hollandi með góðum árangri og varð þrefaldur Norðurlandameistari í sínum aldursflokki 2013, auk þess að vinna til fleiri verðlauna. Helga stundar einnig skíði og hefur gaman af fjallgöngum.




Hörður Valgarðsson æfir þríþraut með Ægi og á langan feril að baki í hjólreiðum og hlaupum. Hann hefur hlaupið heilt maraþon auk þess sem hann kláraði Laugavegshlaupið, sem er 55 km utanvegahlaup, árið 2012. Hann hefur stundað sjósund í eitt ár og hefur meðal annars synt Bessastaðasund, Fossvogssund og Skarfavararsund. Hann hlaut silfurverðlaun á Íslandsmóti í 3 km sjósundi síðastliðið sumar. Hörður er mikill fjallagarpur og hefur gengið á flest fjöll landsins.
Sigrún Þuríður Geirsdóttir æfir sund með Ægi og hefur stundað sjósund í 5 ár. Hún hefur meðal annars synt Bessastaðasund, Fossvogssund, Viðeyjarsund, Skarfavararsund, Ægisíðusund, Helgusund, Grímseyjarsund og boðsund frá Ánanaustum upp á Akranes. Hún hlaut silfurverðlaun á Íslandsmótinu í 1 km sjósundi í sínum aldursflokki sumarið 2013. Sigrún hefur mjög gaman að fjallgöngum og hefur meðal annars gengið á Hvannadalshnjúk og á Snæfellsjökul, auk þess sem hún hefur tekið þátt í þríþrautarkeppnum. Sigrún synti boðsund yfir Ermarsundið sumarið 2013.
Sædís Rán Sveinsdóttir er yngsti meðlimur sveitarinnar. Þrátt fyrir ungan aldur hafa afrek hennar í sjósundi vakið mikla athygli en árið 2011 varð hún yngsti sundmaðurinn til þess að synda formlegt Viðeyjarsund, 4,5 km leið, þá aðeins 18 ára gömul. Hún hefur synt Bessastaðasund, Fossvogssund og Skarfavararsund. Hún æfir sund með Ægi og hlaut á dögunum fjögur gullverðlaun í sínum aldursflokki á Norðurlandamóti í garpasundi.
Jóhannes Jónsson er liðsstjóri Yfirliðsins